Samstaða!!

Það verður fróðlegt að sjá hvort sjómenn standi þéttar að baki LÍÚ á Austurvelli á fimmtudag en eigin stéttarfélögum þegar þau hafa átt í deilum við útgerðamenn. Samstaða sjómanna hefur sjaldnast verið til staðar, því hafa útgerðamenn einhliða getað rýrt kjör sjómanna á ýmsan máta, í gegnum tíðina.

Ég tek mér bessaleyfi og birti hér mjög góðan pistil í heild sinni eftir
Birgi Kristbjörn Hauksson.

HÉR_ er tengill á bloggið hans.

Sjómaður stígur fram.

„Nú er hafinn allsherjar herkvaðning Sægreifana og skal nú ráðist fram með offorsi kjafti og klóm.

Ekki er laust við að hugtakið „sókn er besta vörnin“ hafi komið upp í huga manns er maður heyrði af fundinum dramatíska í Vestmannaeyjum þann 21. janúar sl. Þar sem bæjarstjóri Vestmannaeyjar, steig fram og reyndi að sannfæra okkur um að hann talaði máli fisverkafólks og sjómanna.

Nú tekur steininn úr og við sjáum í raun, grímulaust hvað gengið er langt í að verja sérhagmuni þessarar elítu sem hefur skuldset greinina með kaupum á bílaumboðum, hrossabúgörðum, glerhöllum hér í Rvk, Vöndlum og vindlingum og hvað þetta heitir alltsaman sem við venjulegt fólk hefur ekki neinar forsendur né vilja til að skilja.

Þessi elíta hefur dinglað í einhverskonar yfirstéttar útópíu lífi, kostuðu af leigu og sölu á kvóta.

Hvað hefur allt þetta brask og hégómi með útgerð að gera?

Þeir hittu svo sannarlega sannleikann í hjartastað þeir Þórólfur Matthíasson hagfræðiprófessor „Samhengi hlutanna“og Kristinn H. Gunnarsson, fv. alþingismaður „Allt rangt hjá Þorsteini“ í Fréttablaðinu 31. maí sl. [Sjá hér og hér.]

Það er alkunna að sjómenn og fiskverkafólk eiga ekki svo gott með að láta í ljós skoðanir sínar á kvótabraskinu.

Í umræðunni um brottkastið undanfarin ár hafa sárafáir sjómenn stigið fram og vitnað um brjálæðið.

Ég þekki þetta persónulega sjálfur hafandi búið í 18 ár í miðlungsstóru sjávarplássi þar sem ég var til sjós hjá stærstu útgerðaraðilunum auk þess að starfa við eigin rekstur í veitinga og gistihúsageiranum.

Það hefði ekki hvarflað að manni að gagnrýna eitt né annað opinberlega eins og undirritaður gerir hér.

Það þarf enginn að efast um skoðanir venjulegs fólks á háttalagi og málflutningi þessara manna.

Öll þjóðin er búinn að fá upp í kok. Það er búið að þvæla og flækja sáraeinfaldan hlut, beita ósvífnum hræðsluáróðri um sviðinn sjávarpláss og allsherjar gjaldþroti með fólksflótta, atvinnuleysi og hörmungum.

Fari þeir þá bara á hausinn.

Skipin og húsin, mannskapurinn og verkkunnáttan fara ekki neitt og verða ekki af fólkinu tekinn.

Varla sökkva hrúðurkallar skipum eða fullkominn frystihús fúna sundur.

Þessir menn kaupa pólitíkusa gegnum prófkjör, lána þeim fé á vildarkjörum, dæla fjármunum í flokka og síðastliðin misseri þegar tók að kreppa að þeim var vopnabúrið styrkt með Moggakaupum og til öryggis var Hrunameistari no.1 settur í ritstjórastólinn.

Hafinn var kerfisbundinn heilaþvottur þess efnis að ekki sé hægt að breyta neinu, kvótinn sé veðsett eign og búin að ganga kaupum og sölum í fleiri ár.

Að ekki sé hægt að taka kvótann af einhverjum sem keypti hann af öðrum og svo koll af kolli.

Þetta kallast að slá ryki í augu okkar og til þess fallið að drepa málinu á dreif.

Við vitum öll hver á fiskinn í sjónum.

Hvernig er mögulega hægt að þvæla meira með þetta.

Þessir menn hafa hreinlega verið að versla með þýfi með fulltingi banka, fæ ég ekki betur séð.

Í smáauglýsinga dálkum á netinu er eftirfarandi tilkynning frá lögreglunni:

„Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hvetur fólk til að vera á varðbergi gagnvart þýfi og hafa samband ef grunsemdir vakna. Ennfremur er minnt á ábyrgð þess sem kaupir þýfi.“

Grunlausir kaupendur hafa þurft að afhenda varning (Þýfi) og staðið uppi með sárt ennið ef ekki hefur verið hægt að lögsækja seljandann (Þjófinn)

Framkoma þessara manna gagnvart réttkjörnum stjórnvöldum sem voru kosin meðal annars til að leiðrétta þessa vitleysu er fáheyrð.

Hér fer fámennur hópur fólks sem stendur upp í hárinu á stjórnvöldum og hótar efnahagslegum hryðjuverkum.

Frekjan, hrokinn, siðblindan og yfirgangurinn er algjör.

Ekki er nóg með að búið er að ganga ógætilega um auðlindina með brotkasti og illa skipulagðri sókn í tegundir á röngum árstíma.

Ætlunin er hreinlega að ræna henni með ofbeldi.

Nei ykkur er ekki vorkunn að greiða uppsett gjald og sætta ykkur við töluvert minni gróða, hvort þið sitjið uppi með 3 krónur, 7 krónur eða 2,30 krónur í hreinan hagnað er ekki ykkar að ákveða né koma í veg fyrir.

Við sem þjóð höfum til þess Stjórnvald sem heitir Alþingi og þó að margt megi um það deila þá er það ekki lengur í skúffum Viðskiptaþings eða LÍU.

Nú ríður á að við venjulegt fólk í landinu snúum bökum saman og verjumst árásum þessara manna sem með braski sínu og niðurrifi góðra gilda eiga sinn þátt í því hvernig komið er fyrir landi okkar og þjóð.“

Skrifaði Birgir Kristbjörn Hauksson.

Greinaskilin sem gera pistilinn læsilegri eru verk Illuga Jökulssonar, einnig setti hann inn tenglana. „Tilgangurinn helgar meðalið“ því fyrirgefst mér vonandi notkunin.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband